Fréttir

Með risasvepp sem bragðast eins og steik

Magnús sveppabóndi í Kópavogi segir sveppina til margra hluta nytsamlega, hvort sem er í matreiðslu, húsgagnasmíð eða skógerð. Hann ræktaði á dögunum gríðarstóran svepp sem hann segir bragðast eins og dýrindis steik.

Áhugi Magnúsar Magnúsarsonar á sveppum hófst fyrir um fimm árum þegar hann greindist með krabbamein og þurfti að hætta að vinna sem kvikmyndagerðarmaður. Fyrst um sinn fiktaði hann við ræktunina en áhuginn vatt fljótt upp á sig og fyrr en varði var Magnús farinn að rækta tíu týpur af sveppum. Hann ræktaði á dögunum um tveggja kílóa svepp.

„Maður gerir þetta nú yfirleitt ekki. En ég ætla að búa til úr honum steik. Þá tek ég hann bara, set hann á pönnu, brýt hann saman, og þrýsti á hann í svona tíu mínútur til að ná úr honum öllu vatninu og svo grilla ég hann. Og þú færð ekki betri steik,“ segir Magnús.

Sveppir eru framtíðin - Úr Landanum á RÚV

Magnús Magnús fylgist vel með ostrusveppunum sem hann ræktar í þar til gerðum gámum við Elliðavatn. Í gámnum vaxa sveppirnir í plastpokum og endurnýttum eggjafötum.